PÍPÓ ehf

Óslitin starfsemi
í 50 ár

 

PÍPÓ ehf á Akranesi hefur haldið uppi óslitinni starfsemi í 50 ár og sér þar jöfnum höndum um nýlagnir og viðhald pípulagna. Haft hefur verið á orði að uppi á Skaga sé vandfundinn sá pípulagningamaður sem ekki hefur tekið út sína verklegu reynslu hjá Hafsteini Sigurbjörnssyni, stofnanda fyrirtækisins.

Image
Hafsteinn fæddist í Hafnarfirði árið 1931 en fluttist upp á Akranes í ársbyrjun 1932. Frá 15 ára aldri og fram að þrítugu starfaði hann m.a. sem stýrimaður á nýsköpunartogurum og öðrum fiskiskipum. Eftir gangsetningu Sementsverksmiðju ríkisins árið 1958 réðst Hafsteinn þar til starfa og lærði til vélvirkjunar undir leiðsögn Páls Indriðasonar. Hann hóf nám í framtíðarfagi sínu árið 1965 hjá Þórði Egilssyni pípulagningarmeistara. Árið 1966 hóf Hafsteinn sjálfstæðan rekstur með nokkra menn í vinnu. 
Á aðeins örfáum árum jókst reksturinn svo að umfangi að ráðlegast þótti að stofna sameignarfélagið Pípulagningaþjónustuna, sem opinberlega var tilkynnt í firmaskrá þann 27. nóvember 1973. Alveg frá upphafi hefur stjórn fyrirtækisins haldist innan sömu fjölskyldunnar. Á undanförnum árum hafa synirnir Ingólfur (1959) og Sigurbjörn Hafsteinssynir (1956) tekið við kefli föðurs síns og stýrt rekstrinum af miklum myndarbrag. Nú hafa Bjössi, Steini, Hjalli og Keli tekið við af rekstrinum. Pípulagningaþjónustan, nú PÍPÓ ehf, er með aðsetur að Kalmannsvöllum 4a á Akranesi og eru níu manns í fullu starfi hjá fyrirtækinu.
Upphaf starfseminnar
Á sinni löngu vegferð hefur PÍPÓ ehf komið að öllum helstu bygginga framkvæmdum á Akranesi. Meðal stærri viðfangsefna á áttunda áratugnum var lagna vinna við stækkun sjúkrahússins og byggingu Dvalarheimilisins Höfða ásamt fjölda fjölbýlishúsa sem risu í bæjarfélaginu.

Uppbygging hitaveitunnar á Akranesi og nágrenni á níunda áratugnum átti síðan eftir að verða mjög umsvifamikið verkefni. Aðdragandinn að því fólst í niðurtekt á kyndistöð við Kársnesháls í Kópavogi en hún var flutt og sett upp við Sjúkrahúsið á Akranesi.
Þaðan voru lagðar stofnlagnir og þær tengdar við Brekkubæjarskóla og Íþróttahúsið við Vesturgötu en í beinu framhaldi hófust mikil uppgrip fyrir nýstofnaða Hitaveitu Akraness og Borgarness (HAB).
Verslunin Pípó
Árið 1982 opnaði Pípulagningaþjónustan 300 m2 sérverslun í fyrrum lagerhúsnæði sínu að Ægisbraut 27. Þar var boðið upp á lagnavörur, hreinlætistæki, reiðhjól og fleira. Árið 1985 var nafn verslunarinnar stytt úr Pípulagningaþjónustunni yfir í hið grípandi heiti Pípó sem bar uppi táknrænt vörumerki með lýsandi bláum og rauðum hringjum. Verslunarreksturinn átti eftir að verða mjög farsæll enda mikil uppsveifla í byggingamarkaðnum á Akranesi á þessum tíma. Árið 1997 fluttist Pípó yfir í rúmgott og sérhannað húsnæði, miðsvæðis í bænum, að Esjubraut 47. Á þeim stað var byggð upp mun stærri sérverslun með baðinnréttingar og hreinlætistæki og stækkaði hún um helming árið 2001. Verslunarrekstur Pípó var seldur til Húsasmiðjunnar árið 2004 en verktakastarfsemin hélt áfram í óbreyttri mynd með höfuðstöðvar í núverandi húsnæði við Kalmansvelli.
Velgengni
Þrátt fyrir erfitt árferði í íslensku atvinnulífi undir lok fyrsta áratugar hins nýja árþúsunds, hefur rekstur Pípó notið mikillar velgengni enda hafa stjórnendur farið varlega í miklar fjárfestingar. Verkefni hafa verið sótt allt frá Reykjavíkursvæðinu og upp í Borgarfjörð þar sem fyrirtækið hefur t.d. átt sinn þátt í myndarlegri uppbyggingu háskólaþorpsins á Bifröst. Þar hafa starfsmenn Pípulagningaþjónustunnar eytt ófáum stundum síðustu árin í vandasömum verkefnum af ýmsu tagi.
Starfsfólk

Ingólfur Hafsteinsson

Framkvæmdastjóri
pipo@pipo.is
431-5151 / 895-5152

Þorsteinn Björnsson

Verkstjóri
steini@pipo.is
865-7636

Bernódus Örn Karvelsson

Pípulagningamaður 
862-4779

Sigurbjörn Hafsteinsson

Pípulagningameistari
pipo@pipo.is
893-0922

Hrafnkell A. Sigurbjörnsson

Verkstjóri
keli@pipo.is
869-1769

Daniel Merlin Taroni

Pípulagningamaður
844-6209

Helga Lind Geirdal

Bókari
bokhald@pipo.is
431-5151

Hjálmar Rögnvaldsson

Verkstjóri
hjalli@pipo.is
649-1650

Björn T. Axelsson

Verkstjóri
bjossi@pipo.is
868-0288